Harðgerð ávaxtatré sem þola sæmilega seltu. Fæst eplatré eru sjálffrjóvgandi, yfirleitt þarf tvö yrki og þá er enn betra að hafa þrjú. Einstaka eru hálfsjálffrjóvgandi og geta gefið uppskeru ein, en eru betri með öðrum.
Blómgunartími getur verið misjafn og því verður að velja saman tré sem blómstra á sama tíma. Flest eplayrki blómstra 28. maí - 12. júní. Sum yrki blómstra annað hvert ár, en það eru minni líkur á því ef þau eru ekki látin bera of mörg epli. Ef aldin eru of þétt er gott að grisja þau þannig að það standi eftir eitt aldin á hverjum klasa.
Um leið og epli fara að detta af trénu eru þau þroskuð. Óþroskuð aldin er erfitt að losa frá trénu. Best er að tína einungis sæmilega þroskuð aldin og tína oftar. Snúðu aldin af frekar en að slíta og láttu stilkana fylgja með aldinunum. Ef epli eru of lengi á trénu geta þau ofþroskast og þá verða þau mjölkennd. Rauð epli fá ekki rauðan lit ef þau fá ekki næga birtu. Fyrsta uppskera er oft eftir 2-5 ár.
Eplatré þrífast best á sólríkum vaxtarstað í næringarríkum, rökum og vel framræstum jarðvegi. Þau þola einnig hálskugga. Sýrustig á að vera í kringum 6-7 (örlítið súr jarðvegur). Þau þola illa að þorna og því nauðsynlegt að vökva vel í sólríkum sumrum. Það er ekki nauðsynlegt að klippa eplatré, en þau þola mikla klippingu. Gott er að klippa eplatrén vel sama ár og þau eru gróðursett. Best er að klippa 1/3 af ársvexti seinnipart sumars og síðan aftur að vori. Gefa skal áburð um miðjan aprí og aftur í júlí um 40 gr. í hvort skipti. Gott er að setja einangrandi mottur yfir ræturnar fyrir veturinn ef eplatréð er í garðinum.
Epli geymast best við 3-5°C í götóttum plastpoka.
Ekki geyma epli og kartöflur á sama stað.